Færsluflokkur: Bloggar

Happasúpa

Fréttatilkynning:
Happasúpa í kvöld, föstudaginn 13.04 kl. 19.00.
Í kosningamiðstöðinni Grófinni 7 í Reykjanesbæ ætlar Heiða að elda og framreiða Happasúpu, með miklu grænmeti og kryddi en einnig dágóðum skammti af lukku, og smá-slettu af gleði. Fólk má koma fram eftir kvöldi, því nóg verður til og súpuskálin kostar 500 krónur. Kaffi og spjall fylgir með í kaupbæti.

allt hægt

Kemst þótt hægt fari. Það er ekki verra mottó en hvað annað. Allavega er ég búin að átta mig á að það er ekkert betra að hlaupa á milli staða til að koma aðeins fleirru í verk á hverri klukkustund. Einfaldlega bara láta hlutina taka þann tíma sem þeir taka, og vera ekki eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár í lok dagsins. Ég er að lesa skemmtilega bók eftir Richard Brautigan, nýþýdda eftir Gyrði Elíasson. Richard Brautigan hefur átt hluta í hjarta mínu síðan ég las Vatnsmelónusykur, en hún er nú enn betri á frummálinu, In watermelon sugar. Tilveran er eins skrýtin og maður vill að hún sé, og þegar ég segi skrýtin meina ég það vel. Fórum í fjölskylduspil í gær, ég, óliver, inga og eiki. óliver vann því hann var svo góður að púsla. afskaplega fínt. svo las ég tjútjú, og fórum á meet the robinson, og ég er aftur hætt að nenna að gera stóra stafi eftir punkt. æ, stundum þarf þess ekki, alveg eins og stundum bara fer maður á ýmsa staði, hvern á eftir öðrum, og pælir aldrei í því hvað klukkan er fyrr en maður er orðinn svangur í kvöldmat.

það sem er skemmtilegast...

Ég hef uppgötvað að það sem er skemmtilegast er það sem kostar ekki peninga. Það kostar ekki að fara í göngutúr, kostar ekki heldur að sitja á bekk og horfa á mannlífið. Svo kostar ekkert að lesa bækur, ja, eða eitt bókasafns-skírteini, en sjálf athöfnin að lesa kostar nú ekkert. Að lokum kostar ekkert að leika sér úti. Róluvellir, garðar, brekkur, að róla, að klifra, að fara í snjókast, að búa til snjókall, að velta sér. Þetta eru þeir hlutir sem skipta máli. Hvernig geta fullorðnir skift þessum hlutum út fyrir að sitja fyrir framan tölvurnar sínar, að keyra í bílunum sínum og að horfa á sjónvarpið, helst fréttir. Alltaf, allan sólarhringinn, eru við fullorðna fólkið að gera eitthvað leiðinlegt, af því að við höldum að við þurfum þess. Ég er bara ekki alveg tilbúin í þetta. Ég þarf að róla. Ég skrifa því bara blogg núna, ef það er eitthvað sem ég þarf raunverulega að segja. Ekki bara til að hafa bloggað nýlega. 

Blogg

Ég hef aldrei haft jafn-mikið að gera og fundið eins litla þörf fyrir að blogga og núna. Fer þetta ef til vill saman, og þegar ég bloggaði sem mest, lifði ég þá svona innihaldslausu lífi að ég fyllti upp í það með bloggi? Mér þætti gaman að fá svör við þessu...Kannski er þetta þó bara tímabil, blogg-stífla í ætt við ritstíflur. Ég bara nenni ekki að skrifa blogg. Undarlegt?!!! Já, þetta hefur allavega aldrei komið fyrir mig áður, og nú er ég búin að blogga í ríflega 3 ár.....

Plötuspilari

vá, ég elska vínilplötur og kasettur. Það er miklu skemmtilegra að hafa aðeins fyrir hlutunum. Það eru alltaf einhverjir að gefa mér gömlu plöturnar sínar, og þannig er ég smám saman að eignast myndarlegasta tónlistarsafn, og borga ekki krónu. Þetta er soldið það sem maður ætti að gera meira af. Stræka á Ikea, og fara í Góða hirðinn eða aðrar notaðar húsgagna- og smáhlutabúðir. Stræka á Skífuna og fara í Safnarabúðina og Geisladiskabúð Valda. Nú eða bara fara í Kolaportið reglulega. Ég held að ég sé búin að taka endanlega ákvörðun um að kaupa bara ekki neitt nýtt, nema ég neyðist til þess. Ókey, matur, hann er víst ekki hægt að kaupa notaðan. Ef maður hættir þessu sífellda kauperíi, smá þarna og aðeins þarna o.s.frv. er maður að senda þau skilaboð út í þjóðfélagið að það sé vel hægt að lifa af án þess að vera alltaf að eyða stórum upphæðum. Ég vil ekki búa í þjóðfélagi þar sem ég er vart komin út úr húsi öðru vísi en að seðlaveskið fari hreinlega að leka peningum. Ég vil ekki hafa það á tilfinningunni að ef ég sé ekki að versla eitthvað geti ég bara ekki verið hamingjusöm. Út með neysluhyggjuna og kapítalismann, inn með endurvinnslu og endurnýtingu. Plötuspilarinn sem ég keypti í Góða hirðinum virkar fínt. Plöturnar mínar eru æðislegar. Ég get ekki einu sinni fengið suma þá tónlist sem ég eignast á vínil á geisladiskum í dag, það er ekki búið að færa alla tónlist yfir á diska. Mér finnst hryllileg tilhugsun að það sé að vaxa kynslóð úr grasi sem kunni ekki á plötuspilara...

Nenni aldrei...

...að skrifa hér. Verða að fara að taka mig á. Það er bara svo fjári erfitt að halda úti tveimur bloggum, og hitt bloggið mitt (skemmtilegt.blogspot.com) er nú orðið þriggja ára og vel rótgróið. Það er í mörg hornin að líta í nútímaheimi, og ótrúlegt að nútímamanneskja haldi úti opinni dagbók á fleirri en einum stað. Þessi blog-þróun hlýtur að benda til þess að nútímamanneskjan skrifi meira en hinn almenni maður fyrir um 50 árum. Kannski tölum við minna saman á móti, allavega hlýtur tjáningaþörf mannsins að hafa haldist nokkuð óbreitt. Það er svolítið gaman að spá í því hve heimurinn hefur breyst gríðarlega á síðustu 50 árum, og hve mikið hann hljóti að koma til með að breytast á þeim næstu 50. Ef ég verð langlíf næ ég að vera lifandi og spræk eftir 50 ár (verð þá 86 ára), og rosalega held ég að heimurinn verði orðinn undarlegur þá. Líklega verður komin tækni sem við höfum ekki einu sinni ímyndunarafl til að sjá fyrir, þ.e.a.s. ef við náum að halda aftur af stríðsherrum sem vilja sprengja og skjóta. Ég er handviss um að heimurinn gæti verið bara fínn eftir 50 ár, með hreinu lofti og friðsamlegu ástandi, ef við byrjum markvisst að stefna í rétta átt í dag, í átt til umhverfisverndar og friðar. En við verðum fyrst að vilja svoleiðis heim. Síðan verðum við að taka af skarið og byrja að taka ákvarðanir sem miða að því að heimurinn færist í átt að þeim heimi sem við viljum búa í. Öðruvísi breytist ekkert. Öðruvísi verða styrjaldir og mengun, og þá verður ábyggilega ekki gaman að vera 86 ára kona árið 2057.

Ég og heilinn minn

Þetta hafðist, og hélt ég þó að við myndum ekki ná inn...Nú er bara að vinna hina keppnina og syngja svo fyrir hönd Íslands í Júróvisjón sama kvöld og alþingiskosningar eru á Íslandi, og ég í 3.sæti í Suðurkjördæmi fyrir Vinstri Hreyfinguna - Grænt framboð. Ef það gerist í alvörunni, held ég að það hljóti að verða skráð á spjöld Eurovision-sögunnar. Óvíst hvort frambjóðandi í alþingiskosningum hafi nokkru sinni fyrr sungið í þessari keppni, en það hefur allavega ekki gerst á Íslandi fyrr. Svo er náttúrulega með ólíkindum að þetta skuli hitta á sömu dagsetninguna. Og ef ég vinn, mun ég sko aldeilis tala um umhverfisvernd og fara með friðarboðskap á alla blaðamannafundina!!!

Snjallasta hugmynd í heimi!

Hvernig væri að hvetja alla þá sem ferðast í og úr vinnu sinni gangandi, hjólandi eða með strætó með því að veita þeim sérstakan umhverfisbónus um hver mánaðarmót? Ef ríkisfyrirtæki myndu öll veita starfsmönnum sínum auka 15.000 á mánuði ef starfsmaður kæmi sér í og úr vinnu fyrir eigin afli á umhverfisvænan hátt, eða nýtti almenningssamgöngur, væri þarna komin prýðileg hvatning, og fólk myndi líklega skilja einkabílinn eftir, spara bensín, fá pening, komast í betra form og ekki menga. Öll fyrirtæki ættu að geta tekið þetta fyrirkomulag upp, og þótt launakosnaður yrði meiri myndi hann eflaust sparast á öðrum stöðum á móti. Veikindi starfmanna minnka við aukið þol, og starfánægja eykst til muna. Bílastæðavandræði úr sögunni, það eru bara kostir við þetta. Þetta er snjallasta hugmynd í heimi, við verðum að berjast fyrir þessu.
mbl.is Grænir ólympíuleikar árið 2012
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bannað að skemma meira!!!

Ég hef verið að velta fyrir mér hvað sé gott og hvað sé slæmt við Ísland. Hvað segir maður við útlendinga sem koma í heimsókn og vita ekkert um það, eða jafnvel fólk sem maður hittir í útlöndum og spyrja mann út í landið manns? Þetta framandi litla land lengst í burtu er jú vissulega mjög forvitnilegt og flestir vita að Björk er þaðan, að við eigum sterka menn og sætar konur, og sumir hafa líka heyrt að hér sé allt alveg brjálæðislega dýrt. Jú, til að hampa nú því sem er virkilega í lagi á Íslandi tel ég yfirleitt upp svona það sem ég er stoltust af og ánægðust með á Íslandi. Yfirleitt byrja ég á því að hampa sundlaugunum okkar, sem eru til staðar hversu lítill sem bærinn er, og eru á mjög skikkanlegu verði. Svo segi ég frá því að loftið sé hreint og laust við mengun, að vatnið í krönunum sé svo gott að enginn þurfi að kaupa sér vatn á brúsum, og að maður þurfi bara að keyra í mesta lagi hálftíma út úr höfuðborginni og þá sé maður kominn upp í ómengaða sveit. Þetta þykja flestum hin mestu tíðindi, og mun merkilegra en Björk, Jón Páll og Hófi til samans. Nú er ég farin að velta því fyrir mér hversu lengi ég get haldið áfram að heilla útlendinga með þessari sögu. Ég vona að það sem sé frábært við Ísland haldi áfram að vera frábært um ókomna tíð, og það sé hægt að einbeita sér að því að laga það sem má fara betur, s.s. hvað allt er brjálæðislega dýrt. Ekki eyðileggja það sem er í lagi, og gera ekkert í hinu sem ætti að laga!

Margt smátt...gerir eitt stórt

Það eru margir hlutir sem gætu verið betri en þeir eru, en líka nóg af hlutum sem eru á réttri leið. Gallinn er bara sá að það eru oft litlu atriðin sem verða ofsalega áberandi og fara í taugarnar á manni, og ef nógu margir litlir hlutir eru að pirra mann, verður úr einn stór pirringur. Það gefur auga leið að það er miklu erfiðara að díla við einn stóran pirring en marga litla, og því verður bara að ráðast í að takast á við eitt lítið mál á eftir öðru litlu máli, þar til öll mál eru leyst og pirringur horfinn. Pirringur er svona undanfari stórs hnerra, en þá klæjar mann heldur ekki í nefið lengur.

Já, eins og maðurinn sagði: Það er farið að krauma í sósunni en kartöflurnar eru ennþá kaldar!!!

Þessi blogfærsla er á dulmáli og þýðir það sem þið viljið að hún þýði, og er ég annað hvort að tala um hnerra og kartöflur eða eitthvað allt annað.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband